Bylting í strengjum - Ernie Ball Paradigm!

Ernie Ball hafa verið framarlega í þróun strengja alla tíð síðan þeir komu fyrstir fram með létta rafgítarstrengi, Ernie Ball Slinky. Áður en Ernie Ball kom fram með Slinky í þeim þykktum sem algengastar eru í dag, þá voru rafgítarstrengir gjarnan með grennsta strenginn á bilinu 0.012-0.014 tommur á þykkt, í stað 0.010 eða 0.009 sem nú er algengast - auk þess sem Slinky strengirnir eru með óvafinn G streng, sem var óþekkt áður. Þessar breytingar gerðu mönnum kleyft að teygja strengina og ná þannig fram blæbrigðum sem ekki voru möguleg áður. En strengir safna í sig skít og svita og missa tón, auk þess sem þeir eru nokkuð gjarnir á að slitna - eins og vonlegt má telja með gjannan stálþráð undir miklli spennu og miklu álagi.

En nú kynnir Ernie Ball til sögunnar nýja línu í strengjum, Paradigm.  Ekki bara eru Paradigm strengirnir meðhöndlaðir þannig að fita og óhreinindi setjast síður á þá, heldur nota Ernie Ball sérmeðhöndlaðan stálþráð í strengina, sem eykur togstyrk strengsins verulega, svo mjög að Ernie Ball ábyrgist að strengirnir slitni ekki í 90 daga! Sem er náttúrulega rugl! Paradigm eru væntanlegir á markað í mars, til okkar skömmu síðar.