Fara í efni

Karfan þín

Karfan er tóm.

Um Okkur

Hljóðfærahúsið og Tónabúðin eru tvær elstu hljóðfæraverslanir landsins. Hljóðfærahúsið á sögu aftur til 1916 og Tónabúðin var stofnuð 1966. Hljóðfærahúsið er með verslun sína í Síðumúla 20 en Tónabúðin er í Glerárgötu 30 á Akureyri.

Fyrirtækið byggir á gömlum grunni, en það var stofnað árið 1916 og er því með elstu starfandi fyrirtækjum landsins.  Að sjálfsögðu hefur starfsemin breyst mjög á undanförnum árum, með samruna við aðrar verslanir. Árið 2001 bættist Samspil- Nótan við, árið 2004 keyptum við Hljóðfæraverslun Leifs Magnússonar, 2007 Hljóma og List og 2008 sameinuðust síðan Hljóðfærahúsið og Tónabúðin .
 
Hér er saga Hljóðfærahússins sem Jonatan Garðarsson tók saman fyrir okkur, þetta er merkileg saga fyrirtækis sem nú fagnar 100 ára afmæli.
 

Hljóðfærahús Reykjavíkur og frú Anna Friðriksson

Anna Ellen Christense-Hejnæs fæddist í Kaupmannahöfn 28. febrúar 1889. Hún var af virðulegri bændaætt á Jótlandi en faðir hennar Niels Christensen rak skóverslun í Kaupmannahöfn. Móðir hennar Ane Hejnæs hafði hlotið kennaramenntun og sá um bókhald fyrirtækisins. Ane annaðist hið stóra heimili en hjónin áttu tólf börn og ærinn starfi sem fylgdi því að sinna fjölskyldunni. Anna Ellen útskrifaðist með æðri menntun og lauk einnig píanónámi sem var ekki algengt nema á betri heimilum.

Anna Ellen Christensen-Hejnæs kynntist Ólafi Müller Friðrikssyni þegar hann var við nám í Kaupmannahöfn og giftist honum 1912. Ólafur fór utan 1906 til að stunda framhaldsnám í Höfn eins og svo margir landar hans á undan honum. Þetta var að vísu hans gamla heimaland því hann var að ætterni frá Danmörku og Þýskalandi. Að námi loknu stundaði Ólafur ritstörf þar til hann flutti aftur heim til Íslands, sem hann taldi sitt ættland. Hann var af íslenskum og þýsk-dönskum ættum, fæddur 16. ágúst 1886 á Eskifirði sonur Friðriks Müller kaupmanns og póstafgreiðslumanns og Ragnheiðar Jónsdóttur, Ólafssonar bónda á Helgavatni í Vatnsdal. Ættarnafnið Müller tengdist þýskum uppruna forfeðra hans sem höfðu verið malarar og kaupmenn. Leið forfeðranna lá til Danmerkur og þaðan til Íslands í gengum danskt verslunarvald. Ólafur ólst upp á Eskifirði en fór rétt eftir aldamótin 1900 til systur sinnar á Akureyri. Þar stundaði hann nám og lauk gagnfræðaprófi 1903 frá Akureyri. Faðir hans Friðrik Müller varð eftir það póstmeistari á Akureyri og þangað flutti öll fjölskyldna. Hann notaði hið erlenda ættarnafn sitt en breytti því í Möller að íslenskum og dönskum rithætti. Ólafur notaður ættarnafn sitt til 18 ára aldurs en kaus eftir það að fylgja íslenskri nafnavenju. Hann felldi niður þýska ættarnafnið sitt 1905 ári áður en hann fór til náms í Kaupmannahöfn og skrifaði sig Friðriksson eftir það. Hann varð gagnfræðingur frá Akureyri og hélt 1906 til Danmerkur til að stunda framhaldsnám. Að námi loknu stundaði hann blaðamennsku og ritstörf og hélt auk þess fyrirlestra. Hann kynntist jafnaðarstefnunni á Kaupmannahafnarárunum og varð eldheitur baráttumaður. Ólafur og Anna  eignuðust einkason sinn Atla í Kaupmannahöfn 1913. Þegar Atli var á öðru ári 1914 hélt litla fjölskylda til Íslands með Botníu og settist að á Akureyri. Þar stofnaði Ólafur fyrsta jafnarðarmannafélag landsins, sem bauð fram í janúar 1915 og náði meirihluta í bæjarstjórn.

Ólafur fór suður til Reykjavíkur vorið 1915 en fjölskyldan Anna og Atli fluttu frá Akureyri til Reykjavíkur 1916. Þá höfðu verkalýðsfélögin í Reykjavík stofnað blaðið Dagsbrún. Ólafur var ráðinn ritstjóri þess og var aðalhvatamaðurinn að stofnun Hásetafélags Reykjavíkur 1915 sem varð síðar Sjómannafélags Reykjavíkur. Hann var einn af forgöngumönnunum þegar Alþýðuflokkurinn og Alþýðusamband Íslands vorur stofnuð 1916. Lífið var ekki neinn dans á rósum því félögin sem stóðu að útgáfu Dagsbrúnar voru treg að leggja til laun ritstjórans sem áttu að vera 125 kr. á mánuði. Hin unga danska móðir sem komin var Íslands vildi vinna hinu nýja ættlandi sínu eitthvað gott. Hún varð þess fljótlega áskynja að ótryggar tekjur eiginmannsins og hugsjónaeldur hans nægðu ekki til að sjá þeim farborða. Dagsbrún hætti að koma út 1919. Ólafur var ritstjóri Alþýðublaðsins þegar það var stofnað 29. október 1919 og sinnti því starfi til 1922. Hann tók aftur við ritstjórninni 1929 og gegndi þeim starfa til 1933. Hann var kosinn  bæjarfulltrúi í Reykjavík 1918 og sat í bæjarstjórn til 1938. Ólafur var eldhugi og hugsjónamaður sem hreif fólk með sér á fundum. Hann hafði það orð á sér að vera fundarglaður og mann orðfimastur. Hann stökk upp á sviðið og talaði blaðlaust af slíkum hugsjónaeldi að viðstaddir hrifust með. Og ekki þýddi að andmæla honum því sá hinn sami fékk þá sneiðina til baka með þeim hætti að menn vildu ekki leggja það á sig oftar en einu sinni. Þessi félagsmálaáhugi hans var ekki til þess að afla fjölskyldunni fjár og  sást Ólafur ekki alltaf fyrir í þeim efnum. Það var því oft þröngt í búi hjá fjölskyldunni.

Anna Friðriksson sagði frá því í viðtali sem birtist í Alþýðublaðinu 1941 að hún hefði alist upp við hljómlistarnám og hljóðfærið hefði verið félagi hennar. Tónlistin var henni eðlileg í æsku enda lærði hún að spila á píanó sem fylgdi henni þegar hún flutti til Íslands. Píanóið hafði verið gjöf frá föður hennar og þótti henni undurvænt um það. Önnu fannst full ástæða til að sinna einhverju starfi utan heimilisins og velti því fyrir sér hvernig hún gæti opnað eigin verslun í Reykjavík. Hún átti ekkert annað en píanóið og seldi það. Peningana notaði hún til að sigla til Danmerkur og kaupa varning sem hún flutti með sér til Íslands. Anna vissi vel hvað hún var að gera en Ólafur var ekki vinsæll meðal borgarastéttarinnar. Þetta bitnaði á Hljóðfærahúsi Reykjavíkur sem tók til starfa í Templarasundi 3 þann 21. nóvember 1916. Þetta var fyrsta eiginlega sérverslunin í Reykjavík og þörfin var vissulega fyrir hendi. Fjölskyldan bjó í sama húsi í lítilli íbúð en Anna saknaði píanósins og vissi alla tíð hvar það var niðurkomið. Það þýddi ekkert að horfa í það þó hljóðfærið væri farið því nú reið á að selja þann varning sem hún hafði flutt inn. Anna auglýsti í Morgunblaðinu 1. desember 1916:

Ég hefi einkasölu fyrir hinar alþekktu hljóðfæraverksmiðjur Petersen & Steenstrup og T.M. Hornung & Sönner. Nokkur piano, harmonium og gitarar til sýnis. Pósthússtræti 14 (hornið á Templarasundi).

Anna Friðriksson.

Opið kl. 1-4 og 7-8.

Verslunin gekk ekkert allt of vel til að byrja með. Þó svo að píanóið hafi gefið ágætlega af sér var megnið af varningnum keyptur fyrir vöruvíxla sem þurfti að greiða á tilsettum tíma. Hljóðfærahúsið hafði frá upphafi aðalumboð fyrir píanóverksmiðjur Hermann Peterson & Sön (nú Andreas Christensen). Þegar fram liðu stundir fékk Anna einnig einkaumboð fyrir Broadwood & Son Ltd. London. Fyrstu árin verslaði hún eingöngu með orgel, píanó og nótur því hún var með umboð fyrir danskt nótnaútgáfufélag.

Anna Friðriksson rak verslun sína í Templarasundi 3 fram á haust 1919. Þá flutti hún í Aðalstrætið, nánar tiltekið í hús Hótel Íslands. Þar með var Hljóðfærahúsið komið í aðal verslunarhverfi bæjarins. Um leið og umsvifin jukust fann Anna vaxandi þörf fyrir fleiri tegundir af tónlistarvarningi. Hún fór að flytja inn grammófóna og harmonikur og margt annað. Hún fékk einkasöluleyfi fyrir vörur frá Decca og Deutsche Grammophone. Anna var snjöll að skynja umhverfi sitt og eftir að hún fór að selja hljómplötur og grammófóna fékk hún þá snjöllu hugmynd að láta semja íslenska texta við vinsælustu erlendu dægurlögin. Hún lét prenta textana ásamt nótum og seldi þeim sem höfðu áhuga á að spreyta sig á lögunum. Þessi nýlunda féll í góðan jarðveg og almenningur lærði fjölda erlendra slagara sem urðu margir mjög lífsseigir. Anna lét sig líka dreyma stóra drauma um almennilegan hljómleikasal en sá draumur rættist að vissu marki er hátíðarsalur Háskóla Íslands var tekinn í notkun.

Á þessum tíma efldist verslunin nokkuð og stundum átti Anna það til að leggja Dagsbrún lið og styrkja útgáfuna fjárhagslega. Verslunin var ekki lengi í Austurstræti því hún var flutt á Laugaveg 18 nokkru síðar. Anna hafði rétt komið sér fyrir á nýja staðnum þegar innflutningur á hljóðfærum var bannaður. Fjárhagsörðugleikar voru í landinu og stjórnvöld leituðu leiða til að draga úr innflutningi á erlendum varningi. Þetta voru slæm tíðindi fyrir Önnu, en þingheimur taldi að hljóðfæri væru óþarfi sem fólk gæti sparað við sig og þar við sat. Anna reyndi að finna lausn á málinu, las frumvarpið um takmörkun á vöruinnflutningi með Hendrik Ottóssyni vini þeirra hjóna. Þau fundu enga smugu í því sem að gagni gat komið. Innflutingur á sérvörum var bannaður en Anna lét ekki deigan síga. Engin sérverslun var með leðurvörur og þar af leiðandi var innflutningur á þessháttar varningi ekki bannaður. Anna hafði kynnst nokkrum leðurvöru kaupmönnum í Danmörku þegar hún var að vaxa úr grasi. Hún stofnaði leðurvörudeild innan Hljóðfærahúss Reykjavíkur og reyndi að vanda vöruvalið eins og kostur var. Hún stillti vörunum út í versluninni og auglýsti leðurvörusýningar. Fólk dreif allsstaðar að til að skoða útstillingarna í gluggum verslunarinnar og mörgum þótt vænt um þessa viðbót. Viðskiptin blómstruðu á nýjan leik og á sama tíma tók Anna upp á því að selja íslenskar hljómplötur sem voru ekki á bannlista.

Eftirfarandi auglýsing birtist 8. júní 1920 í Alþýðublaðinu:

Nýjar íslenzkar grammofonplötur eftir Eggert Stefánsson söngvara og nokkur lög eftir Pétur Jónsson söngvara, og margskonar aðrar grammofonplötur, nýkomnar.

Plöturnar voru gefna út af Polyphone, dönsku útgáfuryrirtæki sem Anna fór í samstarf við um útvegum íslenskra söngvara. Samstarfið varð til þess að fjöldi platna kom út næstu árin t.d. með Sigurði Skagfield, Eggerti Stefánssyni, Ríkharði Jónssyni, Pétri Á. Jónssyni, Einari Markan og Maríu systur hans, Dóru Sigurðsson eiginkonu Haraldar Sigurðssonar, Signe Liljequist og Elsu Sigfúss dóttur Valborgar Helleman Einarsson og Sigfúsar Einarssonar dómorganista. Anna gaf út plötur með gamanvísnasöngvaranum Bjarna Björnssyni og fyrstu íslensku dægurlagaplötuna. Það vildi þannig til að Atli sonur hennar söng ásamt hljómsveit Elo Magnussen undir leyninafninu Guðmundur Þorsteinsson árið 1936 lögin Top Hat, Nú veit ég og Ljúfa Anna. Söngur hans var ekkert sérstaklega góður og lét Atli af þessari iðju snarlega um leið og hann tók við Leðuriðjunni. Anna var einnig umboðsmaður Hallbjargar Bjarnadóttur og átti sinn þátt í að hún söng inn á hljómplötu í Kaupmannahöfn 1938 á vegum Polyphone. Næstu árin efldist samband þeirra og frú Friðriksson, eins og Hallbjörg nefndi hana ætíð, sá um að skipuleggja söngskemmtanir hennar þegar hún kom til Íslands og seldi jafnan miða á skemmtanirnar.

Árið 1921 bjuggu Anna og Ólafur Friðriksson að Suðurgötu 14 sem varð framtíðarheimili Önnu. Ólafur fór á þing Komitern í Rússlandi haustið 1921 og þar tók hann að sér ungan munaðarlausan dreng sem hét Nathan Friedman. Hann kom með drenginn með sér til landsins og tók Anna við honum með það í huga að ættleiða hann. Heilbrigðisyfirvöld á Íslandi voru ekki á því að veita drengnum landvistarleyfi þar sem talið var að hann væri með smitnæman augnsjúkdóm, trachoma, sem var talinn afar hættulegur. Yfirvöld stilltu Ólafi og Önnu upp við vegg og kröfðust þess að þau afhentu drenginn svo hægt væri að senda hann úr landi. Þau voru þessu algjörlega ósammála og töldu að hægt væri að lækna sjúkdóminn. Ólafur bjóst við stuðningi frá félögum sínum en Alþýðuflokkurinn stóð ekki heilshugar að baki þeim hjónum.

Það gekk á ýmsu og hófu nokkrir aðilar í bænum sem gengu undir nafninu hvítliðar samskot til að kosta för drengsins aftur til Rússlands. Vegna þessa lét Anna birta eftirfarandi auglýsingu í dagblöðunum sem birtist 26. nóvember 1921:

Það tilkynnist hér með, að samskot þau sem ,,hvíta hersveitin” hefir byrjað handa fóstursyni mínum, Nathan Friedman, óskast ekki né verður veitt viðtaka.

Anna Friðriksson.

Þegar þessi auglýsing hafði verið birt mátti ljóst vera að reynt yrði að beita hörðu til að ná drengnum af þeim hjónum. Ungliðar jafnarðarmanna undir stjórn Hendriks Ottóssonar tóku stöðu á heimili Ólafs og fjölskyldu hans. Lögreglunni í Reykjavík var beitt til að ná drengnum og koma honum undir læknishendur. Naut lögreglan liðsinnis svonefndra hvítliða sem réðust inn á heimili Ólafs og Önnu í 28. nóvember 1921 undir stjórn Jóhanns P. Jónssonar lögreglustjóra. Atburður þessi var nefndur Hvíta stríðið vegna þess að varalið lögreglunnar var í hvítum einkennis stökkum. Á heimilinu kom til orðaskaks og stimpinga sem enduðu með því að fjöldi manna var færður í fangelsi. Ólafi var haldið lengst og Anna eiginkona hans var yfirheyrð tímunum saman.  Síðan var hún flutt ásamt Nathan Friedman á franska spítalann þar sem landlæknir átti að rannsaka sjúkdóm drengsins. Nathan var haldið áfram á spítalanum og sendur nokkru seinna til Kaupmannahafnar. Þar fékk hann bót meina sinna en kom aldrei aftur til Íslands.

Þegar Önnu hafði verið sleppt og hún sneri aftur heim kom í ljós að heimili hennar var illa leikið eftir atganginn. Skrifborð hennar hafði verið brotið upp og viðskiptabréf tekin  ásamt persónlulegum bréfum Ólafs. Gengið hafði verið um heimilið með þeim hætti að húsgögn og munir höfðu brotnað og ýmsar persónulegir eigur þeirra voru horfnar. Sumt af því skilaði sér aftur en annað kom aldrei í leitirnar. Málið var allt hið sérkennilegasta og bar keim af pólitíkskum væringum. Ólafur var frægur jafnaðarmaður og talinn hættulegur bolsjeviki, en hvítliðarnir voru flestir úr stétt kaupmanna og atvinnurekenda sem vildu hefta útbreiðslu jafnaðarstefnunnar.

Anna skipti sér aldrei opinberlega af pólitík og var ekki flokksbundin, en hún gat ekki sætt sig við óréttlæti og valdníðslu sem henni fannst fjölskyldan beitt. Hún ritaði stutta grein sem birtist í Alþýðublaðinu 7. desember 1921 undir fyrirsögninni Hvíta herliðið. 

Ég sé enga ástæðu til þess að fara að deila í blöðunum við hr. Johann P. Jónsson um aðferðir ,,hvíta herliðsins” á heimili okkar hjóna, ef til vill hefir hann ekkert vitað um, hvað þar gerðist, en ég hefi sannfrétt, að logandi lampa var velt yfir frakka mannsins míns og ber frakkinn þess merki á tveim stöðum, enda þykir mér slíkt ekkert undarlegt þar eð druknir menn af hvítliðum gengu þar um, veit ég nafn eins þeirra. Hvernig öllu var umturnað í svefn herbergi okkar, má sjá af mynd sem ég lét taka, þegar ég kom heim aftur.

Viðvíkjandi ummælum Morgunblaðsins um framkomu manna þeirra, sem voru heima hjá okkur dagana á undan, verð ég að segja, að ég aldrei sá neitt til þeirra anna en hið prúðmannlegasta, og var þar mikill munur á því, sem ég sá til ýmsra úr hvíta liðinu seinna.

Anna Friðriksson.

Þetta hafði nokkra eftirmála og lengi vel var óvild ríkjandi af hálfu ákveðinna aðila gagnvart Önnu og Ólafi. Þrátt fyrir þessa einstæðu atburði og mótlætið sem fygldi gekk verslunin bærilega. Þegar Anna auglýsti leðurvörusýningar stóð fólk í stórum hópum utan við verslunina til að skoða úrvalið í gluggunum og versluninni sjálfri. Þetta þótti mikil nýlunda enda engar aðrar leðurvöruverslanir í bænum. Almenningur sýndi vilja sinn í verki og keypti varninginn hjá frú Friðriksson og studdi hana þannig til frekari afreka.

Árið 1924 flutti Anna verslunina frá Laugavegi í Austurstræti 1 og þar vegnaði henni mjög vel. Húsið var jafnan nefnt Veltan því þar hafði fyrsta kaupfélagið í Reykjavík, svonefnt Veltufélag, verið til húsa. Sama ár fékk Anna einkaumboð fyrir Linguaphone Institute Ltd. London sem gaf út námskeið á hljómplötum og kennslubækur í fjölmörgum tungumálum m.a. íslensku. Þessi nýi varningur vakti forvitni margra og innan tíðar urðu tungumála plöturnar eftirsóttar. Jafnan var drjúg sala í plötunámskeiðum þessum og fór stöðugt vaxandi eftir því sem á leið öldina og fjárhagsleg staða landsmanna batnaði. Þetta var einföld og góð leið til að læra tungumál.

Síðsumars 1924, nánar tiltekið í ágúst, kom systir Önnu til Reykjavíkur en hún hét Olga Christensen-Hejnæs. Olga ætlaði að vera systur sinni innan handar og það leið ekki á löngu áður en þær komu á laggirnar listamannakabarettum að danskri fyrirmynd. Þessar skemmtanir voru haldnar þrisvar í viku á veitingastaðnum Rosenberg í kjallara Nýja bíós. Saman unnu systurnar að því að efla menningarlífið og fengu m.a. Valborgu Helleman Einarsson eiginkonu Sigfúsar Einarssonar dómorganista, Emil Thoroddsen, Eymund Einarsson, Markús Kristjánsson Theódór Árnason o.fl. til að koma fram á þessum kvöldskemmtunum. Listakabarettarnir byggðust á hljóðfæraleik, söng, upplestri og fróðlegum fyrirlestrum. Síðar færðust þessar skemmtanir yfir í Skjaldbreið nærri Alþingishúsinu. Þegar það húsnæði varð of lítið voru skemmtanirnar haldnar í Iðnó. Fyrir kom að kabarettarnir væru haldnir í heimahúsum og þá oftast heima hjá Önnu og Ólafi eða uppi á lofti í Veltunni. Olga var dugleg og fylgin sér. Hún ritaði blaðagreinar um listaskemmtanir og setti einnig á laggirnar kjólaverslunina Ninon 1927 sem hún nefndi eftir frægu lagi sem Jan Kiepura söng í kvikmynd. Anna tók við versluninni af systur sinni og rak hana þar til hún seldi hana til Ingibjargar Helgadóttur í febrúar 1937.

Anna hóf starfsemi tónleikamiðlunar 1926 og á hennar vegum komu margir merkir tónlstarmenn til landsins fram að seinni heimsstyrjöldinni. Hún setti einnig á laggirnar Musikklúbbinn sem hélt regluleg tónlistarkvöld á Hótel Íslandi. Það var í tengslum við þessa starfsemi sem hún tók upp á því að flytja inn erlenda tónlistarmenn, sem var ekki mjög algengt fram að því. Fyrstur kom danski söngvarinn Helge Nissen og margir fylgdu í kjölfarið. Þar á meðal voru norskir, danskir, sænskir og evrópskir listamenn s.s. sellóleikarinn Arnold Földesy, franski fiðlusnillingurinn Marteau og hinir vinsælu sænsku harmonikuleikarar Gellin og Borgström. Píanóleikarinn Ignaz Friedman kom tvisvar til landsins og var hann kynntur í frétt sem birtist í Alþýðublaðinu 24. mars 1935 með eftirfarandi hætti: 

Eftir því sem frú Anna Friðriksson hefur skýrt Alþýðublaðinu frá, ætlar hinn heimsfrægi píanósnillingur Ignaz Friedman að koma hingað í aprílmánuði og halda hér þrjá konserta. Þetta er svo stór viðburður í músíklífi bæjarins, að enginn sem áður hefur gerst, getur á nokkurn hátt jafnast á við hann. Ignaz Friedman er ekki aðeins álitinn vera einn af allra stærstu píanó snillingum okkar daga, heldur yfirleitt allra tíma. Frú Anna Friðriksson annast komu hans.

Ignaz Friedman hélt þrenna tónleika fyrir fullu húsi í Gamla bíói og svo mikil var eftirspurnin að hann var fenginn til að halda fjórðu tónleikana og veitti ekkert af. Hann kom aftur til landsins árið 1938 og gerði þá stormandi lukku eins og í fyrri ferðinni. Anna flutti einnig inn Kúbanska kósakakórinn og undrabarnið Wolfi Schneiderhan. Hún þótti halda svo faglega á málum að henni var boðið að gerast umboðsmaður þessa unga tónlistarmanns. Anna átti að fylgja honum á hljómleikaferð sem var fyrirhuguð um Bandaríkin en hún kaus að sinna sínu hér heima á Íslandi og fór hvergi.

Önnu þótti afleitt að þurfa að flytja verslun sína enn á ný 1931 er hún missti húsnæðið í Veltunni. Hún fékk þá inni í kjallara Braunsverslunar við Austurstræti 10. Þar var verslunin ekki mjög sýnileg en Anna dó ekki ráðalaus heldur lét mála á götuna hvað orðið hefði um Hljóðfærahús Reykjavíkur. Meðal þess sem hægt var að kaupa í versluninni á þeim tíma var límið Metallfix sem var svo sterkt að það límdi flestallt, leður, hljóðfæri og fleira. Sama ár fór Atli út til Kiel í Þýskalandi til að stunda nám í verslunarskóla. Þar kynntist hann Mariann Stehn og gengu þau í hjónaband nokkru seinna og komu til Íslands. 

Reksturinn í kjallara Braunverslunar gekk ekki sem skildi og útibú sem Anna hafði opnað á Laugavegi 38 varð fljótlega baggi. Hún var ákaflega fegin þegar henni gafst tækifæri eftir eins árs veru í Braunsverslun að flytja sig í hús Helga Magnússonar að Bankastræti 7. Vegna þess hversu illa gekk á Laugaveginum ætlaði Anna að loka útibúinu og auglýsti mikla útsölu 26. febúar 1932 í Morgunblaðinu:

Útibúið á Laugavegi 38 hættir. Búðin óskast leigð. Stórkostleg útsala byrjar í dag.

Hljóðfærahús Reykjavíkur. 

Anna Friðriksson.

Nokkrum mánuðum seinna var ákveðið að Atli sonur hennar tæki við rekstrinum á Laugaveginum, enda var hann að stofna fjölskyldu og þurfti á föstu starfi að halda. Mæðginin birtu þessa auglýsingu í Morgunblaðinu og Alþýðublaðinu 13 og 14. júlí 1932:

Það tilkynnist hér með að, ég undirritaður hefi tekið við verzluninni á Laugavegi 38 frá 1. júlí þ.á. og rek ég hana framvegis með sömu vörum sem hingað til, undir nafninu: Hljóðfærahús Austurbæjar.

Virðingarfyllst. Atli Ólafsson.

 

Samkvæmt ofanrituðu hefir sonur minn, Atli Ólafsson, tekið við verzluninni á Laugavegi 38 frá 1. júlí þ.á.

Anna Friðriksson.

Atli var hugmyndaríkur og sannfærður um að hann gæti snúið rekstrinum þannig að hagnast mætti á honum. Eftirfarandi auglýsing birtist í Morgunblaðinu 13. ágúst 1932:

Uppfinning, sem hristir og skekur veröldina! DURIUM danzlög á spjöldum! Tilvalin úti og inni; spila 2 lög í einum rykk – kosta 2,50 (tvö lög) aðeins lítið en gott úrval. Hljóðfærahús Austurbæjar.

Verslunin á Laugaveginum fékk stuttu seinna nafnið Atlabúð og varð mjög vinsæl meðal ungra Reykvíkinga. Atli fann upp á ýmsu áhugaverðu til að glæða viðskiptin. Á reiknings eyðublaði verslunarinnar kom fram hvaða varning og þjónustu var að fá í Atlabúð: Plötur, nótur, hljóðfæri, strengir, varahlutir – alls konar leðurvörur, sérgrein kventöskur – viðgerðir.

Atli fylgdist vel með nýjungum sem tengdust tækni og var alla tíð mikill áhugamaður um allt sem laut að upptökutækni. Í ferð sem hann og móðir hans fóru til útlanda vorið 1934 til að kaupa varning fyrir verslanirnar kynntust þau nýrri tækni sem þeim fannst ástæða til að gefa frekari gaum. Greint var frá þessu í frétt sem birtist í Alþýðublaðinu 5. júlí 1934. Þar mátti lesa að frú Friðriksson hefði í síðustu utanför sinni kynnst nýrri tækni við upptökur og hrifist svo af henni að hún hafi orðið sér úti um öll nauðsynleg tæki og flutt þau með sér heim. Mæðginin létu innrétta upptökuherbergi og auglýstu síðan nýja þjónustu:

Hljóðritunarstöð Hljóðfærahússins á 1. hæð í sama húsi og Hljóðfærahúsið, Bankastr. 7.

Upplýsingar í Hljóðfærahúsinu og Atlabúð, Laugavegi 38.

Anna lét Atla sjá um þessa nýju þjónustu og þau auglýstu að fólk gæti látið hljóðrita hvað sem því datt í hug. Fólk var hvatt til þess að láta hljóðrita á plötur eigin rödd og barna sinna, sögur og sendibréf, hljóðfæraslátt og söng. Boðið var upp á undirleik ef þess var óskað. Einnig var bent á að hægt væri að taka upp rödd einhvers ástvinar með litlum tilkostnaði og geyma hana um langan aldur. Þetta var ágætis leið til að senda ættingum og vinum skilaboð eða fréttir af persónulegum högum. Meðal þeirra sem nýttu sér þessa tækni til að flytja skilaboð með þessum hætti var Halldór Laxness sem var sannkallaður heimsmaður.

Samkvæmt leiðbeiningum sem fólk varð að kynna sér áður en hljóðritun var framkvæmd kom eftirfarandi fram: 

Það er enginn viðstaddur, meðan á hljóðrituninni stendur. Vér höldum engu afriti eftir af plötunni. Á ódýrustu plötuna kemst tveggja síðna sendibréf, en hún kostar 4 krónur. Plötuna getið þér fengið um leið og síðasta orðinu er sleppt.

Þessi nýja upptökutækni var ágætis leið til að varðveita ýmislegt sem tengdist alþýðumenningu þjóðarinnar þó tæknin væri mjög frumstæð á seinni tíma mælikvarða. Merkustu upptökurnar voru gerðar fyrir Kvæðamannafélagið Iðunni. Félagið samdi við Atla Ólafsson um að taka upp fjölda kvæðalaga til að varðveita raddir gamalla kvæðamanna og kvæðalögin sjálf fyrir komandi kynslóðir. Upptökurnar fóru að mestu fram vorið 1935 og seinni hluta árs 1936. Kveðnar voru 200 stemmur sem voru teknar upp á 50 silfurplötur. Þessar upptökur voru gefnar út á 4 geislaplötum á vegum Kvæðamannafélagsins Iðunnar og Smekkleysu árið 2004.

Atlabúð starfaði ekki lengi því Atli stofnað Leðuriðjuna Atson (ATli ÓlafsSON) árið 1936. Hann starfrækti fyrirtækið til æviloka og tók dóttir hans við rekstrinum af föður sínum þegar hann andaðist. Þetta var sannkallað fjölskyldufyrirtæki því Anna lagði fjármunina sem hún fékk fyrir fataverslun Ninon í stofnun Atson. Þar starfaði seinni eiginkona Atla sem hét Margrét Sigrún Bjarnadóttir og var verkstjóri í Atson 40 ár. Þau engu í hjónaband 1949 nokkrum árum eftir að Atli og Marianne slitu samvistum. Þrátt fyrir að Atli og Margrét slitu samvistum 1967 héldu þau áfram að vinna saman í fyrirtækinum ásamt börnum sínum.   

Árið 1941 nánar tiltekið í febrúar gaf Anna Friðriksson Háskóla Íslands konsertflygil af vandaðri gerð sem framleiddur var í Bretlandi. Það var Broadway hljóðfæri sem gefið var í tengslum við 25 ára afmæli verslunarinnar. Nokkuð skyggði á gleði Önnu að hljómbotn flygilsins brotnaði í flutningunum en mjög örðugt var um flutninga á þessum tíma vegna strísátakanna. Hljóðfærið var vátryggt og framleiðendurnir staðfestu að þeir ábyrgðust viðgerð á hljóðfærinu um leið og viðgerðarmenn fyrirtækisins kæmust til landsins. Gert var við hljómbotninn til bráðabirgða en hljóðfærið fékk ekki almennilega yfirhalningu fyrr en að stríðinu loknu. Árni Kristjánsson píanóleikari og Björn Ólafsson fiðluleikari héldu úti Háskólatónleikum í hátíðarsal háskólans um þessar mundir og kom flygillin að góðum notum. Þessi tónleikastarfsemi fór aðeins fram þetta eina ár í hátíðarsal Háskólans og var ekki tekin upp aftur fyrr en löngu síðar. Þetta sama ár stofnuðu nokkrar konur í Reykjavík Zonta klúbb og var stofnfundurinn haldinn 16. nóvember 1941. Anna Friðriksson var kosinn gjaldkeri klúbbsins og sinnti því hlutverki næstu árin.

Þegar heimsstyrjöldinni síðari lauk breyttist margt og nýir aðilar reyndu að hasla sér völl á flestum sviðum viðskiptalífsins. Þetta varð til þess að hljóðfærasalar sáu sig knúna til að stofna hagsmunasamtök. Svohljóðandi fréttatilkynning birtist 12. apríl 1945 í Þjóðviljanum og Alþýðublaðinu:

Þann 10. þ.m. var stofnað hér í bæ Félag hljóðfærasala. Tilgangur félagsins er að gæta hagsmuna og réttinda þeirra sem í fjölda ára hafa verzlað með hljóðfæri og músíkvörur og haft hafa umboð fyrir merkustu hljóðfæraverzlanir ýmissa landa. Formaður félagsins var kjörinn Sturlaugur Jónsson stórkaupmaður og meðstjórnendur Helgi Hallgrímsson og Anna Friðriksson. 

Hljóðfærahús Reykjavíkur hafði verið starfrækt í 30 ár 21. nóvember 1946. Af því tilefni birtist frétt í Alþýðublaðinu þar kom fram að Anna væri elsta starfandi kaupkona á landinu og bjóst hún við að sinna þessu starfi næstu 20 árin. Anna Friðriksson var sannkölluð athafna- og menntakona því hún innti af hendi mikilvægt menningarstarf sem fólst í fá til landsins marga fræga tónlistarmenn og söngvara. Frú Friðriksson tók á móti gestum, velunnurum, tónlistarfólki og viðskiptavinum á heimili sínu 21. nóvember til að fagna afmæli verzlunarinnar. Hún gerði meira því hún studdi unga listamenn með fjárframlögum þ.á.m. var Gunnlaugur Scheving sem naut velvilja frúarinnar og fjárframlaga.

Anna og Ólafur slitu samvistum en eftir að þau voru skilin átti Anna það til í hvert sinn er henni var hallmælt eða gagnrýnd á einhvern hátt að segja: Skal ég þá heila mitt líf bæta fyrir að ég var gift með ham Ólafur Friðriksson? Matthías Johannesen skáld lýsti frú Önnu á stuttan en hnitmiðaðan hátt með eftirfarandi hætti:

Hann [Ólafur Friðriksson] kvæntist gerðarlegri konu sem síðar rak Hljóðfærahúsið við Bankastræti. Hún var dökkhærð og framandi og stakk á ýmsan hátt í stúf við umhverfi sitt.

Hljóðfærahús Reykjavíkur hóf útgáfu undir eigin nafni 1953 þegar séra Þorsteinn Björnsson fríkirkjuprestur söng jóla- og áramótalög inn á þrjár plötur. Anna gaf út þrjár plötur til viðbótar með sálmasöng séra Þorsteins við undirleik Sigurðar Ísólfssonar 1956 þegar fyrirtækið varð 40 ára. Þegar blaðamaður Morgunblaðsins ræddi við hana í tilefni þessara tímamóta sagði hún að margt hefði breyst til batnaðar í tónlistarlífi Reykjavíkur. Verslunin fékk rúmbetra húsnæði í Bankastræti 7 um þessar mundir og var versluninni skipt í hljómplötudeild, nótnadeild og hljóðfæradeild en undir þá deild féllu plötuspilarar sem seldust mjög vel. Að auki var leðurdeildin enn við lýði sem seldi aðallega vörur frá Atson. Hvað hljóðfærin snerti voru gítarara og blokkflautur vinsælasti varningurinn en einnig trompetar og básúnur.

Páll Ísólfsson dómorganisti og tónlistarstjóri Ríkisútvarpsins minntist frú Önnu Friðriksson að henni látinni. Hann ritaði þessi eftirmæli sem birtust í Morgunblaðinu 16. mars 1960:

Frú Anna Friðriksson andaðist 27. febrúar í sjúkrahúsi eftir langa sjúkdómslegu. Ég vildi minnast hennar sem stórbrotinnar og mikilhæfrar konu. Hún var höfðingi í lund og drengur góður. Ég átti því láni að fagna, að þekkja frú Friðriksson um langt árabil, og finnst mér nú skarð fyrir skildi, en hún er horfin af sjónarsviðinu. Frú Anna Friðriksson var ekki aðeins hin frábæra kaupkona, sem rak stóra verslun af miklum dugnaði og fyrirhyggju. Hún var einnig mjög músíkölsk og hafði mikinn áhuga fyrir fögrum listum, og þá sérstaklega málarlist og tónlist. Hún fylgdist af miklum áhuga með þeim framförum í músík sem hér hafa orðið síðustu 3-4 áratugina, og hún talaði af góðum skilningi um listir yfirleitt.

Heimili frú Önnu var glæsilegt og bar vott mikillar smekkvísi í hvívetna. Hér bjó kona sem unni listum. Hér ríkti menningarbragur og glæsilmennska.

Ég vildi með þessum fáu línum þakka frú Önnu Friðriksson trygga vináttu. Hún var mikill vinur vina sinn. Slíkt gleymist ekki. Eru mér margar stundir á heimili frú Önnu minnistæðar og ég geymi þær í þakklátu hjarta.

Páll Ísólfsson.

Anna ól upp sonardóttur sína Dís Ragnheiði Stehn Atladóttur sem sitt eigið barn. Hún fæddist 15. ágúst 1935 og bjó hjá ömmu sinni í húsinu Suðurgötu 14. Þegar Dís gekk í hjónaband og giftist Luther Jónssyni 22. janúar 1957 var heimili þeirra á Suðurgötunni. Um þetta leyti tók Dís við rekstri Hljóðfærahússins til að létta undir með ömmu sinni því heilsunni var farin að hraka. Anna var lögð inn á sjúkrahús og hafði verið veik í langan tíma er hún lést 27. febrúar 1960. Hún var jarðsungin í frá Fossvogskirkju 5. mars 1960.

Eftir að Anna var fallin frá hélt Dís utan um rekstur Hljóðfærahússins þar til bræðurnir Árni og Jóhann Ragnarssynir keyptu reksturinn. Þeir fluttu verslunina í Hafnarstræti 1 en þar var hún til húsa þar til Hljóðfærahúsið flutti 1967 á Laugaveg 96 við hliðina á Stjörnubíói. Var nýja verslunin opnuð í nóvember um leið og haldið var upp á hálfrar aldar afmæli Hljóðfærahússins. Var verslunin til húsa þar sem Burstagerðin hafði verið með starfsemi sína en húsnæðið var tekið algjörlega í gegn. Þar voru þrjár verslanir starfræktar undir sama þaki á tveimur og hálfri hæð. Breytingin á húsnæði þótti afar vel heppnuð og stór útstillinga gluggi á allri framhlið hússins vakti verulega athygli. 

Morgunblaðið birti frétt um opnunina 19. nóvember 1967 og þar mátti lesa eftirfarandi:

Til hægri í kjallaranum er svo plötu- og hljóðfæradeild Hljóðfærahúss Reykjavíkur, en það þekkta fyrirtæki flytur nú úr miðbænum og á þennan stað. Í plötudeildinni er úrval af alls kyns hljómplötum, bæði fyrir unglinga og ekki síður klassísk músík. Þá er þarna Linguaphone námskeiðin heimsfrægu, en eigendur verslunarinnar sögðu okkur að mikil eftirspurn væri eftir þeim. Það kom í ljós að Hljóðfærahúsið er hætt að versla með nótur, og fór ,,nótnalager” þess í Bókasafn Hafnarfjarðar, en þar eru nótnabækurnar til útlána. Markaður var ekki nægur fyrir nóturnar og því var verslun með þær hætt.

Árni Ragnarsson framkvæmdastjóri verslunar og Jóhann bróðir hans ráku Hljóðfærahús Reykjavíkur allt þar til Jón Ólafsson í Skífunni keypti reksturinn árið 1988.

Hljóðfærahúsið var rekið sem deild innan Skífunnar allt til ársins 2006 er reksturinn var seldur Lyfjum og Heilsu og Sindra Má Heimissyni sem eru núverandi eigendur. Fyrirtækið keypti Tónabúðina á Akureyri 2008 og sameinaði rekstri sínum í Reykjavík en Tónabúðin er áfram á Akureyri og fagnar fimmtíu ára afmæli sínu, er stofnuð 1966.

(c) 2009 Jónatan Garðarsson

 

-----------------------------------------------------------------------------------------
ENGLISH VERSION !

 

Hljodfærahusid and Tonabudin, the two oldest music retail companies in Iceland, 
have united to form the country's largest music store.
We have a 1200m2 location, containing our offices, store and warehouse. 

For general inquiries and orders please use our email